Langar þig að fara út í heim og sinna spennandi sjálfboðastarfi, án þess að borga heilan helling? Þá gæti EVS sjálfboðastarf verið fyrir þig! Evrópa er stór og spennandi heimsálfa. Þú gætir til dæmis unnið í ungmennahúsi í Grikklandi, hestamannafélagi í Finnlandi, leikskóla í Rússlandi eða siglingaklúbbi á Spáni!

EVS stendur fyrir European Voluntary Service, eða evrópska sjálfboðaliðaþjónustan, og er hluti af Erasmus+. Evrópa unga fólksins sér um EVS á Íslandi í samstarfi við ýmis sjálfboðaliðasamtök og æskulýðssamtök.

EVS býður upp á fjölbreytt sjálfboðaliðastörf í Evrópu í 2-12 mánuði fyrir ungt fólk á aldrinum 17-30 ára. Ef þú ferð sem EVS sjálfboðaliði eru fæði, gisting, ferðakostnaður og vasapeningur öll styrkt af Erasmus+.

Hafþór Freyr var EVS sjálfboðaliði í Þýskalandi

Berlin-EUF - Copy


"Ég er EVS sjálfboðaliði á barnaheimili í Þýskalandi fyrir börn sem geta ekki dvalið heima hjá sér, ef þau eiga heimili yfirhöfuð. Hver einasti dagur er ótrúlega dýrmætur og börnin og samstarfsmenn mínir eru eins og stór fjölskylda sem tekur á móti mér með opnum örmum þegar ég mæti á morgnanna. Stærsta áskorunin við komu var að öll samskipti fóru alfarið fram á þýsku. Til að byrja með þurfti ég að láta nægja að geta bara skilið aðalatriðin af því sem sagt var og geta varla tjáð mig á meðan ég var að komast upp á lagið með tungumálið. Á hverjum degi bíða mín nýjar áskoranir sem misjafnlega gengur að leysa, en ef illa gengur þá hef ég alltaf ótrúlega sterkt bakland sem aðstoðar mig við að redda málunum.”

Rakel var EVS sjálfboðaliði í Kína

Rakel í Kína
Rakel mælir eindregið með því að grípa tækifærið, gerast EVS sjálfboðaliði, ferðast og upplifa nýja hluti!

"Ég er EVS sjálfboðaliði að vinna sem enskukennari í Fuzhou, Kína. Það skemmtilegasta við að vera sjálfboðaliði er að prufa stöðugt eitthvað nýtt. Þetta er einnig frábært tækifæri til að ferðast frekar um Asíu sem ég hefði örugglega ekki gert hefði ég ekki farið til Kína. Kínversk menning kom mér mikið á óvart og það getur verið erfitt að venjast nýjum hlutum eins og að geta ekki tjáð sig en ég talaði enga kínversku. Ég var einnig lengi að venjast ýmsum siðum eins og t.d að það að hrækja hvar og hvenær sem er sé hið besta mál.”

Hvernig á að fara í EVS sjálfboðaliðastarf?


Til að fara sem EVS sjálfboðaliði þarftu fyrst að hafa samband við samtök á Íslandi sem geta verið „sendisamtök“. Þessi samtök hjálpa þér síðan við að finna og sækja um sjálfboðaliðastarfið sjálft. EVS sendisamtök á Íslandi eru:

Þú gætir líka byrjað á að skoða EVS samtök sem bjóða upp á EVS sjálfboðastörf í EVS gagnagrunninum. Þar er meðal annars hægt að leita eftir landi eða viðfangsefni.

Árið 2014 var nýr gagnagrunnur settur upp þar sem EVS samtök auglýsa sjálfboðaverkefni sem hægt er að komast í með stuttum fyrirvara.

Ef þú vilt fá frekari upplýsingar skaltu ekki hika við að hafa samband við Evrópu unga fólksins. Við erum í síma 551 9300 og í netfanginu euf@euf.is