Fundir ungs fólks og ráðamanna snúast um að ungt fólk geti átt í samræðum við þá sem fara með völd í samfélaginu. Stefnumótunarsamræður í nærsamfélaginu (t.d. innan sveitarfélaga) hafa áhrif á stefnumótunarsamræður á landsvísu, og síðan á evrópskar stefnumótunarsamræður.

Náðu í umsóknareyðublaðið!

Fundir ungs fólks og ráðamanna geta verið:


 • Fundir þar sem ungt fólk ræðir við hvert annað og við ráðamenn
 • Fundir sem undirbúa Ungmennaráðstefnu ESB í því landi sem er í forsæti Leiðtogaráðs ESB
 • Viðburðir í tengslum við evrópsku ungmennavikuna sem haldin er á 18 mánaða fresti
 • Samráð við ungt fólk í tengslum við lýðræðisleg ferli
 • Viðburðir sem líkja eftir starfsemi lýðræðislegra stofnana (þing, sveitarstjórnir o.s.frv.)

Dæmi um verkefni


Ungmennafélag Íslands skipulagði ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði. Þar komu saman fulltrúar ungmennaráða sveitarfélaga og félagasamtaka af öllu landinu og ræddu um geðheilbrigði ungmenna á Íslandi. Ráðstefnan stóð frá miðvikudegi fram á föstudag og fór fram á Selfossi. Þátttakendurnir unnu saman í vinnusmiðjum og umræðuhópum.  Ráðstefnunni lauk með ályktun sem kynnt var fyrir þingmönnum, sveitarstjórnum og í fjölmiðlum.

Sveitarfélagið Hornafjörður fékk styrk fyrir verkefninu Hornafjörður unga fólksins. Fjórar vinnuhelgar voru skipulagðar þar sem ungt fólk í sveitarfélaginu kom saman og ræddi mismunandi málefni í hvert skipti. Tilgangurinn var að hvetja ungt fólk til þess að taka virkan þátt í ákvarðanatöku innan sveitarfélagsins og ná fram skoðunum ungs fólks.

Reglurnar


Hverjir geta sótt um?
 • Félag sem starfar ekki í hagnaðarskyni
 • Staðbundinn opinber aðili
Fjöldi samstarfsaðila
 • Innlendur fundur: Ein samtök.
 • Fjölþjóðlegur fundur: Ein samtök frá hverju landi, minnst tvö lönd og þar af minnst eitt land sem er þátttökuland Erasmus+.
Þátttakendur
 • Ungt fólk: Minnst 30 einstaklingar á aldrinum 13-30 ára frá löndunum sem taka þátt í verkefninu
 • Ráðamenn: Ef ráðamenn taka þátt í verkefninu geta þeir gert það óháð aldri og búsetu.
Staðsetning
 • Innlendur fundur: Verkefnið þarf að fara fram í því landi sem sótt er um styrk.
 • Fjölþjóðlegur fundur: Fundir mega fara fram í þeim löndum sem eru að taka þátt í verkefninu.
Lengd verkefnis
 • 3-24 mánuðir
Umsóknarfrestir
 • 2. febrúar (verkefni sem byrja 1. maí til 30. september)
 • 26. apríl (verkefni sem byrja 1. ágúst til 31. desember)
 • 4. október (verkefni sem byrja 1. janúar til 31. maí)

Styrkupphæðir


Verkefnisstyrkur
 • Skipulagsstyrkur: € 39 * fjöldi daga * fjöldi þátttakenda
 • Stuðningur við sérþarfir: 100% af kostnaði vegna þátttöku fatlaðra einstaklinga
 • Sérstakur kostnaður: 100% af kostnaði vegna  þátttöku ungs fólks með færri tækifæri eða vegabréfsáritana
 • Sérstakur kostnaður: 75% af kostnaði vegna skoðanakannana/samráðs við ungt fólk á netinu og vegna kynningar/dreifingar á niðurstöðum

Ferðastyrkur innanlands

   Ef kostnaður vegna ferðar innanlands til að komast í millilandaflug er hærri en € 225 er hægt að sækja um auka ferðastyrk að upphæð € 180 fyrir hvern þátttakanda.
  Hægt er að sækja um þennan styrk 2x á mann þegar langt er í alþjóðlegan flugvöll í báðum löndum.

 

Ferðastyrkur

Vegalengdir miðast við loftlínu. Notið þessa reiknivél til að finna vegalengdina.

 • 10-99 km: € 20 á mann
 • 100-499 km: € 180 á mann
 • 500-1999 km: € 275 á mann
 • 2000-2999 km: € 360 á mann
 • 3000-3999 km: € 530 á mann
 • 4000-7999 km: € 820 á mann
 • 8000 km og lengra: € 1300 á mann

Viltu sækja um? Náðu í umsóknareyðublaðið!