Í formlegu námi, námi innan skólakerfisins, er lærdómur oft metinn og staðfestur með prófum og gráðum. Í óformlegu námi, t.d. í æskulýðsstarfi, er líka hægt að meta og staðfesta lærdóm. Youthpass er tæki til þess að meta og viðurkenna óformlegt nám í æskulýðsstarfi.

Búðu til Youthpass á Youthpass.eu!

Youthpass er í boði fyrir einstaklinga sem taka þátt í verkefnum sem fá styrk frá Evrópu unga fólksins í flokki Nám og þjálfun í æskulýðsstarfi (EVS sjálfboðastarf, ungmennaskipti, þjálfun starfsmanna) og Stefnumótun í æskulýðsstarfi (fundir ungs fólks og ráðamanna). Youthpass er gefinn út af þeim sem skipuleggja verkefnið en byggir alltaf á sama formi sem SALTO-Youth hefur þróað.

Til að kynnast Youthpass betur mælum við með því að skoða bæklinginn Youthpass for Absolute Beginners eða Youthpass fyrir byrjendur. Bæklingurinn er því miður aðeins til á ensku.

Tilgangurinn með Youthpass


 • Youthpass er tæki til þess að staðfesta þátttöku í verkefnum – Helstu upplýsingar um verkefnið koma fram á Youthpass sem og nafn viðkomandi þátttakenda. Þetta getur meðal annars verið gagnlegt til þess að taka óformlegt nám fram á ferilskrá.
 • Youthpass er tæki til þess að meta lærdóm í verkefnum – Þátttakendur geta metið sinn eigin lærdóm og það mat kemur fram á Youthpass. Matinu er skipt niður í átta þætti sem saman ættu að ná utan um flestan lærdóm:
  • Samskipti á móðurmáli
  • Samskipti á erlendum málum
  • Stærðfræðifærni og grunnfærni í vísindum
  • Stafræn færni
  • Að læra að læra og skipuleggja sitt eigið nám
  • Félagsleg færni og samfélagsvitund
  • Frumkvæði og frumkvöðlastarf
  • Menningarleg tjáning
   Hér er skjal sem útskýrir betur þessa átta færniþætti

Myndband um Youthpass í ungmennaskiptum

Að búa til Youthpass


Ef þú hefur fengið styrk frá Evrópu unga fólksins ber þér skylda til að bjóða þátttakendum í verkefninu þínu upp á Youthpass.

Til þess að búa til Youthpass þarftu að skrá þig á vefinn Youthpass.eu og slá inn verkefnisnúmerið þitt sem EUF veitir þínu verkefni (t.d. 2015-1-IS02-KA105-000001). Síðan fyllir þú inn ákveðnar upplýsingar um verkefnið þitt og þá útbýr kerfið á Youthpass.eu síðunni skírteini fyrir þátttakendurna. Ef þú lendir í vandræðum með ferlið skaltu endilega hafa samband við Evrópu unga fólksins í síma 551 9300 eða euf@euf.is

Farðu á Youthpass.eu til að búa til Youthpass fyrir þitt verkefni!